Um Naustavör

Naustavör ehf er dótturfélag Sjómannadagsráðs sem um áratugaskeið hefur staðið að fjölmörgum nýjungum á sviði öldrunarmála á Íslandi.

Leiguíbúðir Naustavarar eru nýjung á markaði fyrir eldra fólk, þar sem því gefst kostur á að búa í sérhönnuðum og vel útbúnum íbúðum með góðu aðgengi að þjónustu og afþreyingu í öruggu umhverfi. Náið samstarf er á milli Hrafnistu og Naustavarar og er markmiðið með því að veita aðgang að þeim gæðum sem þar er að finna. Íbúðirnar eru leigðar beint til einstaklinga sem hafa náð a.m.k. 60 ára aldri og býður félagið upp á að gera leigusamning með greiðslu húsaleigu og gjalds fyrir sameiginlegan rekstur sameignar.

Leiguíbúðir Naustavarar eru staðsettar í Hraunvangi í Hafnarfirði, Boðþingi í Kópavogi og á Brúnavegi og Jökulgrunni í Reykjavík. Hafin er bygging á íbúðum við Sléttuveg í Reyjavík, þær verða afhentar árið 2020. Allar íbúðirnar eru sérstaklega hannaðar, byggðar og reknar með þarfir eldra fólks í huga. Í viðbót við sérrými hverrar íbúðar fylgir húsnæðinu mjög stór sameign, þar sem eru m.a. breiðir gangar, anddyri, setustofur, þvottahús, geymslur, lyftur, tengibyggingar við þjónustumiðstöð og hjúkrunarheimili. Ennfremur er  aðgangur að öryggistalkerfi, dyrasímakerfi, brunaviðvörunarkerfi, bílastæðum, lóðum, púttvöllum og útivistarsvæðum ásamt ýmsum öðrum kostum sem ná nokkuð lengra en gengur og gerist í almennu leiguhúsnæði. Öll aðstaða í sameiginlegu rými (nema í Jökulgrunni) er fær fólki með hreyfihömlun og er henni ætlað að styðja við lífsgæði íbúða. Sameiginlegur húsvörður er í öllum húsum, með bakvakt allan sólarhringinn og er þjónustusími opinn allan sólarhringinn, alla daga ársins. Sérstök áhersla er lögð á öryggimál m.t.t. prófana, viðhalds, viðbragðs og vöktunar kerfa í húsinu. Sérstakar umgengnisreglur gilda í húsunum.

Samhliða rekstri íbúða stendur Sjómannadagsráð að rekstri hjúkrunarheimila og þjónustumiðstöðva, en með aðild að DAS-klúbbnum er hægt að nálgast þjónustu á borð við innisundlaug með heitum pottum, matsal, veitingaþjónustu, dagdvöl, veislusali til leigu, skipulagt tómstundastarf, hársnyrtiþjónustu, fótaaðgerðaþjónustu, sjúkraþjálfun, líkamsræktartæki auk skipulagðra viðburða og margs fleira. Aðstaðan er ekki alveg eins á öllum hjúkrunarheimilunum og þjónustumiðstöðvunum og í Boðaþingi býður Kópavogsbær aðgang að þjónustunni.

Markmið Naustavarar er að veita íbúum aðgang að afþreyingu og tómstundum, fjölbreyttri þjónustu og öruggu umhverfi til búsetu á efri árum. Með því trúum við að hver og einn geti haldið sjálfstæðri búsetu svo lengi sem kostur er, samhliða úrræðum sem í boði eru hjá félagsþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðisþjónustu opinberra aðila.

Nánari upplýsingar um íbúðirnar má finna með því að hafa samband við skrifstofu Naustavarar í síma 585-9300 og naustavor@naustavor.is. Aldís Einarsdóttir er þjónustustjóri og framkvæmdastjóri er Sigurður Garðarsson.