Rekstraraðili sjúkraþjálfunar og heilsuræktar óskast

Sjómannadagsráð leitar að framsæknum, jákvæðum og skipulögðum aðila til að sjá um rekstur á sjúkraþjálfun og heilsurækt, auk annarrar heilsueflandi starfsemi, í þjónustumiðstöðinni Sléttunni.

Um er að ræða leigu á um 400m2 rými sem samanstendur af meðferðarrýmum fyrir sjúkraþjálfun, kennslusal og fullbúnum tækjasal með tækjum til líkamsræktar, þar á meðal nýjum HUR tækjum af bestu gerð.

Öflugur samstarfsaðili

Óskað er eftir öflugum samstarfsaðila sem tekur að sér reksturinn og hefur jafnframt brennandi áhuga á að skapa heilsueflandi vettvang sem veitir fyrsta flokks þjónustu. Hér er spennandi tækifæri fyrir aðila sem vilja taka þátt í að móta starfsemi lífsgæðakjarna Sjómannadagsráðs.

Umsóknarfrestur er til og með 15.ágúst 2024. Umsækjendur skulu gera grein fyrir þeirri þjónustu sem þeir hyggjast veita, leigugreiðslum, opnunartíma, áætluðum fjölda starfsmanna auk menntunar þeirra, gjaldskrá, mögulegri þróun þjónustunnar og fjölgun þjónustuþátta.

Sendu umsókn á netfangið throstur.soring@sdr.is

Leigurýmið

Um er að ræða leigu á björtu og fallegu rými á götuhæð Sléttunnar. Rýmið er um 400 m2 að stærð og samanstendur af meðferðarrýmum fyrir sjúkraþjálfun, björtum kennslusal með speglum á einum vegg og fullbúnum tækjasal með fjölbreyttum tækjum til líkamsræktar, þar á meðal nýjum HUR tækjum af bestu gerð. Í rýminu er einnig móttaka, salerni fyrir starfsmenn og gesti, ásamt góðri aðstöðu fyrir starfsmenn.

Smelltu hér til að skoða grunnmynd af leigurýminu og hér  eru nánari upplýsingar um finnska fyrirtækið HUR sem framleiðir snjallari líkamsræktartæki.

Sléttan

Þjónustumiðstöðin á Sléttunni tengir saman hjúkrunarheimili Hrafnistu sem í búa 99 íbúar og þrjú íbúðahús Naustavarar með 147 íbúðum. Innangengt er á milli allra húsanna. Á Sléttunni er kjörið tækifæri til að mæta þörfum hins fjölbreytta hóps eldri Íslendinga sem búa við þjónustumiðstöðina og nýta þar nútíma þekkingu og tækni til að bæta lífsgæði þeirra. Sléttan er ein af þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar og býður hún upp á opið félags- og tómstundastarf. Miðstöðin er opin alla daga vikunnar og þar er einnig ýmiskonar þjónusta s.s. hárgreiðslustofa, fótaaðgerðastofa, verslun, mötuneyti, kaffihús, heilsurækt og dagdvöl ásamt öflugu félagsstarfi.

Starfsemin í húsinu er opin öllum og er þar boðið upp á fjölbreytta dagskrá í bland við fræðslu, skemmtun og uppákomur af ýmsu tagi. Sjálfsprottnir áhugahópar eru stór hluti af félagsstarfinu og vel er tekið í nýjar hugmyndir. Markmiðið er að allir fái tækifæri til að blómstra með þátttöku í félagslífinu og góðu aðgengi að þjónustunni. Lífsgæðakjarninn á að vera akkerið í hverfinu, þar sem gott er að njóta lífsins með jafningjum.

Sjómannadagsráð

Sjómannadagsráð er leiðandi afl í þjónustu við eldri borgara Íslands og er stöðugt að leita leiða til að mæta sem best þörfum þess stóra og fjölbreytta hóps fólks sem kominn er á efri ár.

Í dag er starfsemi Sjómannadagsráðs á átta stöðum í fimm sveitarfélögum, í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Reykjanesbæ. Hrafnistuheimili eru átta og lífsgæðakjarnarnir fjórir. Nýjasti lífsgæðakjarni Sjómannadagsráðs er á Sléttuvegi 25 í Reykjavík, eða Sléttunni.