Leiguíbúðir fyrir aldraða

 

Íbúar í leiguíbúðum Naustavarar búa þar sjálfstæðri búsetu á eigin forsendum en hafa gott aðgengi að þjónustu, afþreyingu og öryggi sem veitt er í samstarfi við næsta Hrafnistuheimili.

Um er að ræða leiguíbúðir með leigusamningi sem er gerður á milli leigutaka (íbúa) og leigusala (Naustavarar). Samningar eru ótímabundnir, uppsegjanlegir með 6 mánaða uppsagnarfresti. Við gerð samnings er greitt tryggingarfé sem samsvarar þriggja mánaða leigu. Við slit leigusamnings er tryggingarfé endurgreitt með verðtryggingu en án vaxta skv. gildandi reglum.

Lögð er áhersla á gott aðgengi, þægilegt umhverfi og nálægð við þjónustu. Þannig geta íbúar búið sem lengst í sömu íbúð.  Lyfta er í öllum húsunum og innan gengt á hjúkrunarheimili Hrafnistu, nema í Jökulgrunni þar sem hvorki er lyfta né aðgengi fyrir hjólastóla, en 200m upp hitaður og upplýstur stígur að hjúkrunarheimilinu. Á Hrafnistu er, hvort heldur sem er, hægt að fá mat í matsal eða að fá mat sendan heim eftir óskum. Þar er einnig fjölbreytt þjónusta sem er breytileg eftir heimilum en alltaf verslun, hárgreiðslu- og fótsnyrtistofur, mikið íþróttastarf, sjúkraþjálfun og tækjasalur. Sundlaugar með heitum pottum eru í Hafnarfirði og Kópavogi.

Íbúum á vegum Naustavarar gefst kostur á að ganga í DAS-klúbbinn.  Klúbbfélagar fá afslátt af mat og hafa aðgang að ýmis konar afþreyingu og tómstundastarfi hjá Hrafnistu. Gefin er út dagskrá tvisvar á ári, vor og haust og er henni dreift ásamt öðrum upplýsingum frá klúbbnum í pósthólf íbúa. Mánaðargjald í DAS-klúbbinn  innheimtist með leigugjaldi. Hægt er að skrá sig í klúbbinn á skrifstofu Naustavarar.

Allir íbúar hafa aðgang að þjónustusíma (585-9300) sem opinn er allan sólarhringinn, allt árið um kring. Einnig geta þeir nýtt sér öryggistalkerfi með neyðarhnappi sem vaktaður er af hjúkrunarvakt Hrafnistu. Hnappana er hægt að panta á skrifstofu Naustavarar. Gjald fyrir öryggishnappa er innheimt með leigu.

Naustavör ehf, f.h. Sjómannadagsráðs sér um almennt viðhald íbúða og rekstur sameigna, bílastæða og lóðar. Þá gefst íbúum aðgengi að húsverði á skrifstofutíma milli kl. 8:00 og 16:00 virka daga og allan sólarhringinn í neyðartilfellum.

Skrifstofa Naustavarar, Brúnavegi 9, Reykjavík,  er opin alla virka daga milli klukkan 8:00 og 16:00.
Sími 585 9300,   naustavor@naustavor.is

Hægt er að leggja inn umsókn og panta tíma fyrir skoðun íbúða á skrifstofunni.

 

Reykjavík

Brúnavegur 9

Kópavogur, Boðaþing

Boðaþing 22 – 24

Reykjavík

Jökulgrunn 2 – 6

Hafnarfjörður, Hraunvangur

Hraunvangur 1 – 3