Nýjustu tíðindi

87 nýjar íbúðir við lífgæðakjarna Sléttunnar

Hafinn er lokaáfangi uppbyggingar leiguíbúða fyrir 60 ára og eldri sem tengjast þjónustumiðstöðinni Sléttunni við Sléttuveg í Reykjavík. Við Skógarveg rísa tvö ný fjölbýlishús með 87 íbúðum sem eru hluti af lífsgæðakjörnum Sjómannadagsráðs, Naustavarar og Hrafnistu.

Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík voru viðstaddir þegar að Guðbjörn Guðjónsson gröfumaður hjá undirverktaka Þarfaþings tók fyrstu skóflustunguna vegna framkvæmdanna sl. föstudag að viðstöddum aðstandendum framkvæmdanna.

Uppbygging lífsgæðakjarnans er samstarfsverkefni Sjómannadagsráðs, Reykjavíkurborgar og ríkisins. Framkvæmdir annast Þarfaþing hf. sem skilar íbúðunum fullbúnum til Naustavarar og er ætlað að því verði lokið seinni hluta ársins 2024.

Sjómannadagsráð hefur þegar til útleigu í gegnum dótturfyrirtæki sitt, Naustavör, 60 íbúðir við Sléttuveg 27. Verða því alls 147 íbúðir fyrir þennan aldurshóp til útleigu í lífsgæðakjarnanum að framkvæmdum loknum. Gæði og búnaður íbúðanna verður sambærilegur og í núverandi íbúðum við Sléttuveg. Innangengt er úr öllum húsunum í þjónustumiðstöð á Sléttuvegi. Auk þess annast dótturfélagið Hrafnista rekstur hjúkrunarheimilis með 99 íbúðum auk þjónustumiðstöðvarinnar Sléttunnar sem er samstarfsverkefni með öðrum félagsmiðstöðvum eldri borgara í Reykjavík.

Hugmyndafræði lífsgæðakjarnans er fædd hjá Sjómannadagsráði og hefur þar verið í þróun í áratugi. Hún gengur út á að reka samhliða hjúkrunarheimili, leiguíbúðir og þjónustumiðstöðvar þar sem eldra fólki eru búnar aðstæður til að hámarka lífsgæði sín.

„Afar ánægjulegt er að geta með samhentu átaki Sjómannadagsráðs, Reykjavíkurborgar og ríkisins, stuðlað að jafnvíðtækri uppbyggingu leiguíbúða fyrir aldraða. Framkvæmdin endurspeglar hvernig slíkt samstarf stuðlar að meiri lífsgæðum og hraðari uppbyggingu, fremur en að hver vinni í sínu horni,“ segir Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs og Naustavarar.

Nýjar íbúðir Naustavarar verða í tveimur samtengdum húsum við Skógarveg 4 og 10. Íbúðirnar eru ýmist tveggja eða þriggja herbergja á bilinu 54 til 90 fermetrar, en þrjár íbúðir verða um 120 fermetrar að stærð. Í íbúðunum er allt aðgengi gott og þær sérhannaðar með þarfir eldra fólks í huga. Hurðaop og gangar eru breiðari en gengur og gerist, einnig eru baðherbergi og eldhús sérhönnuð svo auðvelt sé að nota ýmiss konar stuðningstæki. Reiknað er með að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar um mitt árið 2024.

Undir báðum húsum verður ein stór bílageymsla þar sem stæði verða leigð út sérstaklega. Einnig verða útistæði við húsin og þar verða föst stæði einnig leigð út til íbúa með sama fyrirkomulagi og í leiguíbúðunum sem eru við Sléttuveg.

Meðfylgjandi eru tölvugerðar myndir af nýju húsunum, auk mynda frá athöfn sl. föstudag þegar tekin var skóflustunga við upphaf framkvæmdanna.

Sjá einnig: www.naustavor.is og www.slettan.is

Fyrsta skóflustungan af leiguíbúðum fyrir aldraða við Skólaveg.

Dagur B Eggertsson borgarstjóri og Aríel Pétursson formaður Sjómannadagsráðs ásamt Guðbirni Guðjónssyni gröfumanni, taka fyrstu skóflustunguna.

Fleiri tíðindi