Nýjustu tíðindi

Nýjar rafhleðslustöðvar

Sjómannadagsráð vígir rafhleðslustöðvar við lífsgæðakjarna sína á höfuðborgarsvæðinu.
Íbúðaleigufélagið Naustavör, dótturfélag Sjómannadagsráðs, hefur í samstarfi við Hleðsluvaktina hf. í Grindavík tekið í notkun fjórar hleðslustöðvar fyrir rafbíla við lífsgæðakjarna sína við Boðaþing í Kópavogi, Hraunvang í Hafnarfirði og Brúnaveg og Sléttuveg í Reykjavík. Jóhannes Nordal, fyrrv. stjórnarformaður Landsvirkjunar til þrjátíu ára, lengst af samhliða starfi Seðlabankastjóra, er búsettur í íbúð Naustavarar við Brúnaveg, og vígði hann fyrstu hleðslustöðina formlega í vikunni þegar hann stakk bíl sínum í samband.

Lagði grunn að iðnaði grænnar raforku
Jóhannes Nordal fæddist vorið 1924 og er hann því rúmlega 97 ára að aldri. Hann notar enn bíl sinn til útréttinga og var hann fljótur að átta sig á kostum rafbílanna þegar tími þeirra rann loks upp fyrir alvöru hér á landi. „Ísland er kjörinn staður fyrir orkuskipti í samgöngum enda framleiðum við græna og ódýra raforku í miklu magni sem tilvalið er að nýta á bílaflotann. Rafknúnum bílum fylgir allt í senn lægri kostnaður fyrir bíleigendur, gjaldeyrissparnaður fyrir þjóðarbúið og minni loftmengun sem þjóðir heims þurfa að einbeita sér að,“ segir Jóhannes, sem á að baki langa reynslu af störfum sínum fyrir raforkuiðnað landsmanna. Hann varð formaður stóriðjunefndar árið 1961 þar sem hann leiddi m.a. viðræður við Alusuisse um byggingu álversins í Straumsvík og fyrstu meiri háttar vatnsaflsvirkjun landsmanna, Búrfellsvirkjunar, sem vígð var 2. maí 1970.

Stöðug þróun í þjónustu
Leiguíbúðir Naustavarar eru hluti lífsgæðakjarna Sjómannadagsráðs. Þær eru vel útbúnar og sérhannaðar fyrir eldra fólk. Íbúðirnar eru í næsta nágrenni við hjúkrunarheimili Hrafnistu og geta íbúar notið margvíslegrar þjónustu og afþreyingar í öruggu umhverfi. Uppsetning rafhleðslustöðvanna er einn þáttur í stöðugri þróun þjónustunnar við íbúa og leigjendur, enda hækkar nú stöðugt hlutfall rafbíla við lífsgæðakjarnana eins og víðast hvar annars staðar í samfélaginu.

Fleiri tíðindi